14.6.2007 | 07:31
Bræði
Fyrirsögnin kemur málinu ekkert við, mér finnst bræði bara flott orð.
Nú er komið að fasa tvö - prófundirbúningi - þannig að ég sit hér við tölvuna og reyni að einbeita mér að því að lesa og yfirfara verkefnið. Reyna að finna öll atriði sem prófdómarar gætu mögulega rekið okkur á gat með. Ég hef tekið að mér að vera með theory á hreinu. Vita hvað Giddens átti við með duality of structure og trust in expert systems. Nú gæti margur spurt sig hvað það hefur með eftirlit(surveillance) að gera? Já, það væri áhugavert að geta útskýrt það hér og nú, en það verður að bíða betri tíma.
Get þó upplýst að trust in expert systems er fyrirbæri sem Giddens vill meina að fái okkur mannfólkið til dæmis til að setjast upp í skrilljón tonna ferlíki og fljúga yfir höf og heimsálfur án þess að óttast um líf okkar. (ok, á ekki við um alla Gyða!) Við treystum því einfaldlega að það sé búið að kanna málið til hlítar og ganga úr skugga um að líkurnar á hrapi séu hverfandi. Á sama tíma sér hver heilvita maður að þetta er ekki lógískt. (ok, á ekki við um alla Inga Lára!)
Á sama hátt verðum við að treysta því að allar þær upplýsingar sem geymdar eru um okkur í hinum ýmsustu gagnabönkum og á upptökum úr öllum þeim eftirlitsmyndavélum sem við hættum okkur nálægt séu rétt varðveittar og séu ekki misnotaðar. Allt er þetta gert í nafni öryggis og hægðarauka og við verðum bara að trúa því. Annars verðum við ofsóknarbrjáluð og byrjum að láta eins og kallinn sem Örn Árna leikur í Spaugstofunni og felur sig inni í einni af styttum bæjarins.
Sem enginn nennir að horfa á, grey stytturnar, aleinar, á stöllunum, ræ, ræ, ræ.....
Jæja, hliðarspori lokið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.