Allt á fullu

Nú er nóg að gera á öllum vígstöðvum og svei mér þá ef ég er ekki orðin frekar léleg í hnjánum! Grínlaust, þá verkjar mig í allan kroppinn. Er það svona að eldast? Finna bara allt í einu að skorpan fer að gefa sig? Mantran 'ég-verð-að-fara-að-drífa-mig-í-ræktina' er orðin frekar þreytt - svona í takt við hvað ég er þreytt. Og þegar ég er þreytt þá orka ég ekki að hreyfa mig og fæ því enga aukaorku af því að ég er svo dugleg að hreyfa mig. Catch 22.

Danir eiga alveg yndislegt orð yfir það sem mig langar að hafa meira af í mínu lífi. Overskud. Þessi litli aukaskammtur af orku sem gerir manni kleift að fara í ræktina, baka köku, taka til í skápunum, fara með börnin í hjólatúr, bjóðast til að passa annarra manna börn.... Ekki það að ég sé eitthvað uppgefið flak en það er bara nóg fyrir það nauðsynlegasta. Ekkert auka þessa dagana takk!

Skólinn byrjar á morgun og ég er strax farin að slugsa. Er ekki búin að lesa einhverja lönguvitleysu sem sett var fyrir og ég sé ekki að það sé að fara að gerast. Lesa, lesa, lesa. Uppgötvaði í gær grundvallarmun á hvernig litið er á háskólanám í Danmörku annars vegar og á Íslandi hins vegar. Á Íslandi segist maður vera að læra en í Danmörku segist maður vera að lesa. Ég held að Danirnir eigi nú kollgátuna í þessu. Ég er að lesa hagfræði - ekki þarmeð sagt að ég sé að læra hana. Þetta er reyndar frekar lýsandi fyrir þjóðarsálir þessara tveggja landa. Jantelovsdanirnir segjast bara vera að lesa. Voða duglegir og samviskusamir með rúgbrauð og gulrætur í nesti. Roggnu Íslendingarnir segjast vera að læra! "Ég er að læra hagfræði!" Með ekkert nesti og sofandi í tíma - ef á annað borð er mætt. Svo ætla ég að verða hagfræðingur og fá milljón á mánuði! Mér leiðist íslenskt peningatal.

Rokin í vinnuna. H&M á Strikinu. Þar kunna Íslendingar að eyða peningunum sínum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband