Danskt stelpupopp og kosningar

Ætlaði að setja hérna inn youtube myndbönd með góðri danskri tónlist en svo kemur í ljós að tölvukunnátta mín er ekki nógu 'avanseruð' fyrir svoleiðis tilfæringar. Allavegana, á youtube eru myndbönd með JaConfetti sem eru algjört konfekt og svo er ég líka að hlusta á Tina Dickow sem er 'London-based Århusianer'. Mjög góð.

Hér í Danmörku eru innfæddir að tapa sér í kosningaslag og ég verð að viðurkenna að ég orka ekki að fylgjast með. Ég heyri orðið bara eitt stórt BLABLA þegar stjórnmálamennirnir opna munninn. Grey skinnin eru í viðtölum frá morgni til kvölds og þurfa að eyða allri sinni orku í að muna hvað þeir sögðu nú um æsku sína, ömmu sína, manninn sinn, konuna sína, uppáhalds litinn.......í síðasta viðtali svo þau verði ekki sökuð um að skipta um skoðun sem er auðvitað dauðasynd hjá stjórnmálamanni. Taka ákvörðun og standa við hana - alveg sama hvað. Annars ertu ekki lengur í liðinu. Á milli viðtala mæta aumingjans frambjóðendurnir svo í fylliríspartí hjá ungliðahreyfingum og í extreme makeover hjá fræga hommanum í morgunsjónvarpinu. Er hægt að ætlast til þess að fólkið muni hvernig það ætlar að gera Danmörku meira 'dejlig'?

Ég var annars orðin heitur stuðningsmaður Troels Hartman en eftir að hann var sakaður um morðið á stelpunni þarna og maður fékk innsýn í baktjaldamakkið hjá þessu fólki sem þykist vera að vinna í þágu almúgans þá bara gafst ég upp. (Forbrydelsen er eini þátturinn sem ég fylgist með í sjónvarpi)

Ég er að fara í forældrefest í kvöld. Ég á að mæta með eigið drikkelsi, eitt hundrað krónur fyrir mat og á að skrifa hjá mér eitthvað um sjálfa mig sem enginn annar veit - ekki einu sinni maki. Hmmmm.......ég á gullverðlaun fyrir sigur í spurningakeppni grunnskólanna í Hafnarfirði 1989. Jamm. Hvað gerðist eiginlega?

Gleðilegan nóvember!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef einmitt verið að hlusta á Danskt rapp upp á síðkastið, mér finnst þetta vera algjör snilld.

Bið að heilsa ;)

Oddný (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 15:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband