Þá er janúar liðinn

...og er það vel. Nú bíð ég bara spennt eftir sumrinu! Það er kannski heldur snemmt að vera byrjuð að dreyma um sól og strönd og sumarkjóla og sandala en ég geri það nú bara samt. Það er samt alveg fáranlegt í ljósi þess að ég er að fara til Íslands á föstudaginn!

Það var uppselt í ódýru sólarferðirnar :-)

Ég og strákarnir hlökkum mikið til að koma og heilsa upp á alla. Það eru nú komnir heilir tíu mánuðir síðan ég kom síðast í heimsókn. Hvað ætli hafi breyst? Börn hafa stækkað. Annað helst nokkurn veginn eins.

Sjáumst! 


Janúar er laaaaangur mánuður

En samt einn af mínum uppáhalds. Af því að ég á afmæli, og af því að hann er eitthvað svo nýr og ferskur og upphaf á einhverju sem maður veit ekki ennþá hvernig verður. Það finnst mér gott.

Á þessu ári lýkur Danmerkurævintýrinu og við flytjum aftur til Íslands. Ég hlakka til - og kvíði fyrir. Kvíði þó ekkert mikið fyrir en það verður bara svo margt að sakna héðan og ég er svo hrædd um að maður festist í einhverri Danmerkurnostalgíu þegar það verður soldið erfitt að byrja upp á nýtt á Íslandi. Alveg eins og bróðurpartur Íslendinga er hérna í Danmörku - og víðar í heiminum eflaust. Ef eitthvað er ekki eins og 'heima' og lífið verður smá erfitt, þá er svo auðvelt að hugsa til Íslands og alls þess góða sem maður þekkir þaðan. Ég hef ekki þjáðst af heimþrá.

Mér finnst Ísland yndislegt en mér finnst það of dýrt og of kalt og of langt frá öðrum í heiminum. Annars fullkomið. Svo býr auðvitað besta fólk í heimi á Íslandi - fólkið mitt. Það er líka eitthvað sem ég vill að synir mínir þekki og þess vegna erum við ekki að flytja til Ástralíu. Þessir blessuðu vinir og vandamenn flækja málin aðeins Smile.

Til að heilsa upp á fyrrnefnda vini og vandamenn ætlum ég og strákarnir að koma í heimsókn 8.-17. febrúar. 

Sjáumst! 


Gleðilegt ár!

Ahhhh...þá get ég andað léttar. Mér finnst alltaf svo gott að fá nýtt ár. Jólin eru yndisleg en það fer að slá í þau svo fljótt. Nú get ég farið að tína skrautið saman og gera allt hreint og fínt.

Svona til að tína til það síðasta, þá gekk prófið eins og við var að búast - ekki vel, ekki illa. Kemur þó fyrst í ljós þegar einkunnin birtist.

Jólin voru indæl. Mamma og pabbi komu á aðfangadag og svo skelltum við okkur í át- og pakkabrjálæði. Öndin heppnaðist einstaklega vel og strákarnir fengu allt of marga pakka. Allt eins og það á að vera semsagt. 

Við Addi brugðum okkur til Stokkhólms þann 27. Ég gaf honum utanlandsferð í jólagjöf! Mjög flott á því  þetta árið. En það var mjög gaman að koma þangað. Gamli hlutinn af borginni er ofboðslega fallegur og þar leið mér vel. Mér leið ekki eins vel í hinum hlutanum þar sem fólk var að tapa sér í útsölubrjálæði. Svíar slá greinilega ekki slöku við í innkaupunum frekar en aðrir. 

Gamlárskvöldi eyddum við með vinum okkar hér í hverfinu. Asbjørn og familie buðu til rækju- og dádýralærisveislu og ég gerði skyrtertu í eftirrétt. Mjög gaman. 8 fullorðnir og 7 börn á aldrinum 1 - 7 ára. Mjög fjörugt!

Nú ætla ég að búa til kæmpebrunch, koma ma og pa út á flugvöll og svo tekur hversdagsleikinn við á morgun. Það verður ekkert mál að vekja Felix kl 7 í fyrramálið og koma honum í skólann...

Svo er ég líka komin með nýja vinnu. Sjáumst í Fields... 


6 dagar og 22 tímar

Er tíminn sem ég hef til að lesa fyrir þetta próf og hann líður hratt. Sjálfsaginn er enginn og ég myndi frekar vilja fara í prófið á morgun ólesin en að hafa þetta hangandi yfir mér í viku í viðbót. Segið svo að ég hafi engan metnað!

Felix er búinn að vera heima í þrjá daga núna með hósta og kvef og við erum búin að hafa það voða huggó en afköst í lestri og vinnu eru eftir því.

Mér er boðið í afmælispartí hjá bekkjarsystur minni í kvöld. Hún verður tvítug á morgun. Jamm. Gaman að fá tækifæri til að upplifa tvítugsafmælin aftur. Mitt var skemmtilegt. Ég var svo heppin að eiga afmæli í janúar og því sú fyrsta í vinkvennahópnum sem náði þessum merka áfanga. Það var magnaður nornaseiður fyrir mig í bakgarði Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð, svo skálað í freyðivíni yfir smá pool-spili. Þegar að kveldi var komið var mér boðið út að borða á einhvern ítalskan veitingastað á Laugavegi sem hætti eflaust fyrir tíu árum(já, það er svo langt síðan). Það minnistæðasta við þá heimsókn var ítalski "sjarmörinn" sem kom og söng Gente di mare ásamt öðrum smellum sem við kunnum allar textana við - á íslensku!  Hann var um það bil tuttugu árum of gamall og tuttugu kílóum of þungur til að vera mjög sjarmerandi - at the time. Hvað ætli mér þætti um hann í dag? Ég man ég var í brúnum kjól.


Benign paroxysmal positional vertigo

Ég missti jafnvægið á þriðjudaginn. Fékk það svo aftur á miðvikudaginn. Ég þjáðist semsagt af BPPV í einn sólarhring. Allt er nú til. Eitt af fáum skiptum sem ég hef farið til heimilislæknis með einhvern skrýtinn kvilla og er bara greind og læknuð á staðnum. Er að hugsa um að senda honum blóm.

 


Ilmurinn úr eldhúsinu...

Biscotti í ofninum, jólaskrautið að gægjast upp úr kössunum og Þursaflokkurinn í spilaranum(?!?). Já, það er kominn desember og það er bara gaman. Ég ætla aaaalveg að fara að lesa fyrir próf en bara aðeins baka og skreyta fyrst. Og fara á jólahlaðborð. Og fara í leikhús. Og skrifa jólakort. Og kaupa jólagjafir og jólatré. Iss, þetta próf er nú ekkert svo mikið mál - er það nokkuð?

Hreina sokka, soðna brók. Skemmtilegir textar hjá þeim.

Merkilegasta frétt vikunnar er skýrsla "vismændene" (fjórir prófessorar sem gefa út sína skoðun á því hvernig eigi að stjórna hagkerfi Danmörku og hvað sé almennt best í þeim málum). Þeir leggja þar til að komið verði á gáfusektum. Það þýðir að klárir, sprenglærðir Danir sem kæmu sér fyrir annars staðar í heiminum eftir útskrift þyrftu að borga "strafafgift" fyrir að yfirgefa dejlige Danmark. "Hjerneflugt" er þetta kallað. Menntamálaráðherra þykir tillagan "spændende". Er það bara ég, eða er þetta ekki svolítið taparalegt? Í staðinn fyrir að gera það að aðlaðandi kosti fyrir sprenglærð gáfumenni að ausa úr viskubrunni sínum í heimalandinu, þá á að setja þá í straff ef þeir gera það ekki. Mér finnst þetta öfugsnúið.


Púff, hvert fara dagarnir?

Tíminn líður doooldið hratt núna. Mér finnst bara alltaf vera föstudagur. Ekki það að föstudagar séu ekki ágætir út af fyrir sig, en ég þarf að koma einhverju í verk hina dagana!

Núna er kominn tími á próflestur og það er voða erfitt að koma sér í gang. Skólinn er kominn mjög aftarlega í forgangsröðina en það gengur ekki. Tvö próf eftir og svo allt búið. Kannski bara að eilífu? Þá á ég við skólagöngu, sko. Ég er ekki að vera dramatísk. Wink

Hér var snjór  í morgun. Fyrir þá sem hafa gaman að veðurfréttum.

Almáttugur! Andleysið er ganga af mér dauðri. Snúum okkur þá að próflestri.

p.s. Búin að redda pössun. Vill þó þakka öllum umsækjendum fyrir áhugann á stöðunni og fullvissa þá um að þeirra tími mun koma. 

 


Danskenska

Mikið getur það tekið á að sitja undir danskenskunni. Þá á ég við það tungumál sem margir kennaranna minna tala. Þeir halda að þeir séu að tala ensku en það er svo langt í frá. Í morgun sat ég í tíma hjá manni sem er, eftir því sem ég best veit, mjög fær markaðsfræðingur og hefur gefið út nokkrar bækur á því sviði. Á dönsku. Því ef manngreyið myndi gera það á ensku myndi enginn lesa og hann yrði settur í enskufangelsi. Bæði er orðaforðinn hræðilegur og áherslurnar svo rangar að það skilur enginn orð sem hann segir. inventory, consumer, maintainence.......ég gæti haldið áfram. Allt með dönskum hreim. Ég geri mér grein fyrir að það eru alvarlegri hlutir að gerast í heiminum sem krefjast kannski skjótari úrlausnar en þetta - en mikið vildi ég senda nokkra í enskufangelsi.

Hér er stormur - á danskan mælikvarða. Ég sakna bílsins.

Auglýsi hér með eftir barnapíu 1. desember. Snakk, kók, pizza og tdc kabel TV í boði. 


Danskt stelpupopp og kosningar

Ætlaði að setja hérna inn youtube myndbönd með góðri danskri tónlist en svo kemur í ljós að tölvukunnátta mín er ekki nógu 'avanseruð' fyrir svoleiðis tilfæringar. Allavegana, á youtube eru myndbönd með JaConfetti sem eru algjört konfekt og svo er ég líka að hlusta á Tina Dickow sem er 'London-based Århusianer'. Mjög góð.

Hér í Danmörku eru innfæddir að tapa sér í kosningaslag og ég verð að viðurkenna að ég orka ekki að fylgjast með. Ég heyri orðið bara eitt stórt BLABLA þegar stjórnmálamennirnir opna munninn. Grey skinnin eru í viðtölum frá morgni til kvölds og þurfa að eyða allri sinni orku í að muna hvað þeir sögðu nú um æsku sína, ömmu sína, manninn sinn, konuna sína, uppáhalds litinn.......í síðasta viðtali svo þau verði ekki sökuð um að skipta um skoðun sem er auðvitað dauðasynd hjá stjórnmálamanni. Taka ákvörðun og standa við hana - alveg sama hvað. Annars ertu ekki lengur í liðinu. Á milli viðtala mæta aumingjans frambjóðendurnir svo í fylliríspartí hjá ungliðahreyfingum og í extreme makeover hjá fræga hommanum í morgunsjónvarpinu. Er hægt að ætlast til þess að fólkið muni hvernig það ætlar að gera Danmörku meira 'dejlig'?

Ég var annars orðin heitur stuðningsmaður Troels Hartman en eftir að hann var sakaður um morðið á stelpunni þarna og maður fékk innsýn í baktjaldamakkið hjá þessu fólki sem þykist vera að vinna í þágu almúgans þá bara gafst ég upp. (Forbrydelsen er eini þátturinn sem ég fylgist með í sjónvarpi)

Ég er að fara í forældrefest í kvöld. Ég á að mæta með eigið drikkelsi, eitt hundrað krónur fyrir mat og á að skrifa hjá mér eitthvað um sjálfa mig sem enginn annar veit - ekki einu sinni maki. Hmmmm.......ég á gullverðlaun fyrir sigur í spurningakeppni grunnskólanna í Hafnarfirði 1989. Jamm. Hvað gerðist eiginlega?

Gleðilegan nóvember!


Komin aftur í Menntó

Ekki misskilja mig - ég var í MR og því ánægð með ráðahaginn. Finnst svolítið skemmtilegt að sjá Dag og Guðmund öðru megin við borðið og Gísla Martein hinum megin. Sé fyrir mér að Ólafur Teitur og Rúnar Freyr hlaupi í skarðið fyrir ónefnda borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og svo gætum við skipt einum út hinum megin fyrir einn gamlan MR-ing. Magnús Geir Þórðarson kannski? Svo gætum við endurreist gamalt Róðrarlið með Eyvind Sólnes í fararbroddi og nostalgían yrði fullkomnuð. Eins og Morfís keppni anno 1992.
mbl.is Nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband