11.10.2007 | 09:05
Meiri veikindi
Úlfar er aftur lasinn og hér sitjum við því og horfum á Madagaskar á fimmtudagsmorgni. Gæti verið verra. Hann gæti viljað horfa á Söngvaborg!
Ég ætlaði að vinna í dag en þurfti að afboða mig. Það á ekki að ganga vel fyrir mig að halda í hlutastarfið.
Ætla annars að fara að vinna aðeins meira núna. Ég hætti í tveimur fögum, tek próf í tveimur öðrum í desember og janúar og þar með verður minni skólagöngu í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn lokið. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, en þetta er nýja eins-árs-áætlun heimilisins. Þá nær Addi að klára árið og við komum til Íslands næsta sumar. Nokkur léttir bara. Ekki námsins vegna, sem mig langar mikið að klára, en vegna alls hins. Lífsins, þið vitið. Maður má ekki láta það fara framhjá sér.
Kær kveðja, myglusveppirnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2007 | 07:47
Vindar breytinga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2007 | 18:51
Allt að koma
Úlfar er að hressast eftir slæma viku. Hann er búinn að vera voða lasinn greyið en nú ætlum við að segja þetta gott. Ég hef ekki litið í bók í viku og er kominn tími á mína.
Við Felix fórum í leikhús í gær. Það var í Ballerup og það tók sex klukkustundir með ferðalögum að skreppa þangað. Það munar aðeins um bílinn!
Leikritið var söngleikurinn Gosi. Áhugamannaleikhópur með mjög metnaðarfulla sýningu. Heldur löng fyrir minn smekk, en þau hafa örugglega ekki tímt að stytta. Finnst þetta svo gaman. Aldrei áður lent í því í uppklappi að eitt atriðið er tekið aftur. Alvöru uppklapp. Misstum næstum því af strætó vegna leikgleðinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2007 | 16:14
Lasleiki
Svona er Úlfar búinn að vera í þrjá daga - eða vælandi. Doldið slappur greyið en virðist vera að hressast. Ég er komin með cabin fever.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2007 | 09:18
Danska lífið
Nú er komin smá reynsla á bílleysið og þetta gengur bara ágætlega. Við tökum bara einn dag í einu og reynum að lifa í núinu. Ísskápurinn er reyndar tómur og ég enn lélegri í hnjánum en þetta bjargast.
Addi beitti að sjálfsögðu sinni víðfrægu sjálfsbjargarviðleitni/innkaupagleði og keypti sér skúter. Þá þarf hann ekki að tapa geðheilsunni í almenningssamgönguflakki milli heimilis, skóla og vinnu. Hann vill reyndar að ég fari að nota þetta tól líka en ég er alveg sátt á hjólinu. Úlfar kemst heldur ekki með góðu móti í farangursboxið þannig að það gæti orðið snúið.
Húseigendur komu svo ekki eftir allt saman í síðustu viku en hafa boðað komu sína á morgun. Þurfum semsagt að taka aaallt til upp á nýtt. Ohhhh...
Nú er kominn tími á tíma. Er verndartollastefna stjórnvalda einstakra ríkja að ganga af alþjóðavæðingunni dauðri? Við því fæ ég ef til vill svar næstu tvo tímana. Gleði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2007 | 19:14
Bjarnabófarnir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2007 | 07:14
Bíllinn kyrrsettur
Það kom að því. Fór með bílinn á verkstæði í gær bara svona til að láta líta á hann og vera viss um að það væri óhætt að aka honum yfirleitt. Hljóðið sem heyrist í beygjum hafði nefnilega gerst ansi fyrirferðarmikið. Ég fékk ungan verkstæðismann til að fara í bíltúr og hlusta. Hann stakk af og þegar mér var farið að gruna að hann kæmi aldrei aftur birtist hann með sorgarsvip. "Det er alvorligt, det her." sagði verkstæðismaðurinn og fékk eldri og reyndari verkstæðismann til að líta á sjúklinginn. Sá leit undir drossíuna og sagði, "det kommer til med at koste mange penge!". Svo litu þeir á mig og úr svip þeirra las ég meðaumkun blandaða undrun yfir því að ég hefði ekki komið fyrr. (Addi mjög feginn að það var ekki hann sem fór) Díagnósan hljóðaði mjög flókin (enda á dönsku verkstæðismáli) en það sem ég hjó eftir var það að dekkin gætu skyndilega rokið undan bílnum á ferð. Hann er semsagt kyrrsettur. Nú er það bara reiðhjólið og ég vona að haustið verði milt og að hann hangi þurr fram á vor.
Ég ætla að skrópa í skólanum í dag. Húseigendur ætla að koma í heimsókn seinnipartinn og ég þarf að taka til. Getur þetta fólk ekki bara verið í Afríku þar sem það á heima!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2007 | 11:11
Ég og Tölva
Við eigum ekki svo mikla samleið, ég og Tölva. Það er eitthvað stirt á milli okkar og þó sambandið gangi almennt vel þá er það bara á meðan við eigum í yfirborðslegum samskiptum. Við eigum sameiginlegan vin, Word, og hann er svona sáttasemjari. Ef samskiptin fara í gengum Word þá slettist ekkert upp á vinskapinn. Hann hlýtur að vera vog. Eins ef við einbeitum okkur bara að einhverju utanaðkomandi, þá gengur þetta ágætlega. Horfum á eitthvað á netinu eða lesum. Ef við á annað borð ætlum að taka nýjan vin í hópinn, eins og heimasíðugerðarforrit, svo dæmi sé nefnt, þá fer allt til fjandans! Það er eins og Tölva leiki sér að því að gera mér grikk. Einn daginn vill hún eitt og hinn daginn annað. Samt get ég ekki slitið mig frá henni. Kem alltaf aftur. Aumingi.
Police var æði.
Ég er með svo miklar harðsperrur að ég get varla gengið. En í ræktina fór ég. Brownie point.
Felix er byrjaður í skátunum og nú vill hann hníf og skátaúlpu. Hann vill líka slöngu og DS spil og gsm síma.
Úlfar er byrjaður að pissa í koppinn og talar næstum udelukkende dönsku.
Kominn tími til að koma sér í tíma. Business Economics and Management - er það ekki voða skemmtilegt, ha?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.9.2007 | 09:14
Sumarið er búið...
...og kominn september.
Við erum í Århus og á leið í bæinn að drekka í okkur menninguna sem boðið er upp á í Århus festuge. Svo ætlum við hjónaleysin að skella okkur með Lindu og Hrannari á Police tónleika í kvöld. Gaman!
Gleðilegt haust!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2007 | 06:43
Allt á fullu
Nú er nóg að gera á öllum vígstöðvum og svei mér þá ef ég er ekki orðin frekar léleg í hnjánum! Grínlaust, þá verkjar mig í allan kroppinn. Er það svona að eldast? Finna bara allt í einu að skorpan fer að gefa sig? Mantran 'ég-verð-að-fara-að-drífa-mig-í-ræktina' er orðin frekar þreytt - svona í takt við hvað ég er þreytt. Og þegar ég er þreytt þá orka ég ekki að hreyfa mig og fæ því enga aukaorku af því að ég er svo dugleg að hreyfa mig. Catch 22.
Danir eiga alveg yndislegt orð yfir það sem mig langar að hafa meira af í mínu lífi. Overskud. Þessi litli aukaskammtur af orku sem gerir manni kleift að fara í ræktina, baka köku, taka til í skápunum, fara með börnin í hjólatúr, bjóðast til að passa annarra manna börn.... Ekki það að ég sé eitthvað uppgefið flak en það er bara nóg fyrir það nauðsynlegasta. Ekkert auka þessa dagana takk!
Skólinn byrjar á morgun og ég er strax farin að slugsa. Er ekki búin að lesa einhverja lönguvitleysu sem sett var fyrir og ég sé ekki að það sé að fara að gerast. Lesa, lesa, lesa. Uppgötvaði í gær grundvallarmun á hvernig litið er á háskólanám í Danmörku annars vegar og á Íslandi hins vegar. Á Íslandi segist maður vera að læra en í Danmörku segist maður vera að lesa. Ég held að Danirnir eigi nú kollgátuna í þessu. Ég er að lesa hagfræði - ekki þarmeð sagt að ég sé að læra hana. Þetta er reyndar frekar lýsandi fyrir þjóðarsálir þessara tveggja landa. Jantelovsdanirnir segjast bara vera að lesa. Voða duglegir og samviskusamir með rúgbrauð og gulrætur í nesti. Roggnu Íslendingarnir segjast vera að læra! "Ég er að læra hagfræði!" Með ekkert nesti og sofandi í tíma - ef á annað borð er mætt. Svo ætla ég að verða hagfræðingur og fá milljón á mánuði! Mér leiðist íslenskt peningatal.
Rokin í vinnuna. H&M á Strikinu. Þar kunna Íslendingar að eyða peningunum sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)