22.8.2007 | 13:06
Bakk í bakinu
Sit hér og reyni að finna stellingu sem gerir ekki vont - ég meina er ekki sársaukafull! Er orðin svo dönsk skiljiði, get næstum ekki fundið út úr því að tala íslensk. Er farin að taka fötin af, lána bækur á bókasafninu, segja hæ þegar ég kveð og senda börnin með matkassa í skólann. Iss.
Á semsagt að vera í vinnunni núna en tókst að hreyfa mig eitthvað vitlaust og get því lítið hreyft mig. Frekar hallærislegt að tilkynna sig veika á öðrum vinnudegi eftir næstum fjögurra vikna sumarfrí, en svona er lífið.
Ég hlakka til að byrja í skólanum og láta reyna á sellurnar aftur. Ætla að sjálfsögðu að vera óhemju samviskusöm, lesa alltaf heima og mæta í alla tíma - eins og við upphaf allra minna skólaanna hingað til. Sjáum hvernig til tekst í þetta skiptið.
Ég hef fundið löngun undanfarið til að vera í íslenskri náttúru. Veit ekki hvaðan þetta kemur. Bara hellist yfir mann sisvona. Hvað veldur? Danmörk er nú voðalega náttúrulaus eitthvað, það verður bara að viðurkennast. Allt bara grænt og flatt og maður fær alveg kitl í magann við að keyra niður smá brekku. Mig langar upp á jökul og fjall og sjá foss og labba um í Þórsmörk. Svona til dæmis. Hef hingað haldið mig við Reykjavík City (ef Grafarholtið er talið með!) þegar ég er á landinu en stefni út fyrir borgarmörkin næst. Jamm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.8.2007 | 16:07
Barnleysi er arfgengt!
Nú man ég ekki nákvæmlega söguna en mín útgáfa er um menntaskólastúlku sem spurði í líffræðitíma í menntó hvort það væri arfgengt að geta ekki eignast börn. Frekar klaufalega spurt - að maður hélt. Nú sýnir ný dönsk rannsókn að börn sem koma í heiminn eftir gervifrjóvgun eiga við sama vandamál að stríða. Barnleysi er semsagt arfgengt!
Ætla að fara að elda túnfisksteik.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2007 | 15:40
Hrukkur
Á nýja næturkreminu mínu stendur: reduces expression lines. Á dagkreminu úr sömu línu stendur: reduces wrinkles. Er maður með wrinkles á daginn og expression lines um nætur? Mig langar ekkert að vera með mikið af wrinkles en mér finnst mjög aðlaðandi að hafa expression lines. Tjáningarlínur eru svo miklu fallegri en hrukkur. Hrollur með hrukkur. Nú geri ég tilraun. Set dagkremið á mig á kvöldin og næturkremið á morgnana. Úúúh...spennó!
Sumarið kom um síðir aftur til Danmerkur og það er ljúft. Við sóluðum okkur í Svíþjóð um síðustu helgi, á Sjællands Odde á mánudaginn, á Islands Brygge á þriðjudaginn, á Bellevue ströndinni í gær og í Kongens Have í dag. Kannski maður verði bara heima á morgun? Þyrfti reyndar að loka mig inni og taka til aaallan daginn því það situr á hakanum í svona veðri með börnin í fríi. Sælan má vara aðeins lengur og svo er fríið búið í næstu viku. Felix fer aftur í skólann, Úlfar í Vuggestuen og ég kannski að vinna. Hver veit?
Ég finn að sumarið er að styttast í annan endann þó besta veðrið sé núna. Allt fyllist af skóladóti og nýjum vörum í búðunum og ég finn mig knúna til að kaupa mér nýja penna, stílabækur sem ég hef ekkert við að gera og fataverslanir freista með skiltum sem á stendur New Collection!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2007 | 20:23
Sumarið er tíminn...
Hér er allt að verða vitlaust og brjálæðið nær hámarki í nótt þegar ég vek Gyðu og co. og skutla þeim út á völl. Dóra Cam stoppaði í viku og litla sis í viku eftir það þannig að það verður tómt í kofanum á næstunni. Vildi að ég hefði getað boðið gestunum upp á betra veður en svona er lífið. Doldið blautt! Baltasar gleymir því þó örugglega aldrei þegar hann stóð í sturtuþrumuveðrinu fyrir utan húsið með pabba sínum á meða Guðný frænka fór að sækja húslyklana sem hún hafði gleymt! Gaman að því
Ég fæ engin námslán og ætla bara samt í skóla og svo sjáum við til hvernig til tekst. Jamm.
Felix er á Íslandi og við hlökkum voðalega til að fá hann heim aftur. Svo er bara kominn ágúst, útilega, skólinn að byrja og svo eru bara komin jól. Seisei.
Hef strengt heit þess efnis að vera duglegri að hringja í fólk. Það er ekki eins erfitt og margur heldur. Verið viðbúin!
God nat.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2007 | 14:33
Hæð
Já, dekurrófan fékk sól og hlýju. Takk.
Enn hefur ekkert skýrst með námslánin en það eina sem hægt er að gera er að skrifa bréf og biðja um undanþágu. Reynum það. Annars finn ég upp á einhverju sniðugu.
Mamma er að koma á morgun og ríkir hér mikil Dórutilhlökkun. Úlfar segir "amma dója mín doma".
Ég er enn að jafna mig eftir alveg brjálað félagslíf síðustu daga. Það voru sko tekin tvö kvöld í röð, takk fyrir! Una var í borginni að spila á jazzhátíð þannig að það var kaffihúsakvöld á fimmtudag og tónleikar á föstudag. Ég er mjög stolt af mér að hafa verið svona öflug. Látum það liggja á milli hluta hvað það var tekið á því. (Ekki mikið) En tvö kvöld í röð!
Ætla út í sólina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.7.2007 | 17:02
Lægð
Lægðirnar eru farnar að hafa áhrif á mig og mig vantar góða sólríka og hlýja hæð takk. Fékk að vita í gær að ég eigi ekki rétt áfrekari námslánum. Fimm ára reglan svokallaða - sem ég hélt af einhverjum ástæðum að héti sjö ára reglan - segir að ég fái ekki meiri LÍN peninga. Ohhhh.
Nenni ekki svona. Mig langar að klára þetta nám og mig langar ekki að fara að vinna. Græði ekkert á því hér í skattahelvítinu Danmörku. Hér er gert vel við barnafólk í námi en um leið og ég færi að vinna þá hverfa húsaleigubætur, frípláss í leikskóla og önnur fríðindi - og borga amk 50% í skatt. Ohhhh!
Lort!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.7.2007 | 08:36
Kamar Arnarsson
Ahahaha. Ég er svo fyndin stundum. Var að glugga í vikuritið Sirkus á netinu, en það er mín helsta íslenska hallærisslúðurveita hér í útlandinu. Las þar merka "grein" um þá tilhneigingu fallega og fræga fólksins á Íslandi að skíra börn sín nöfnum samsettum úr nöfnum föður og móður. Ég varð að sjálfsögðu að prófa að vera fræg og falleg og ímynda mér hvað næsta afkvæmi okkar Adda myndi þá heita. Mér fannst Kamar tvímælalaust besta útkoman. Er ekki aðalmálið að vera öðruvísi? Ég meina, smá stríðni herðir krakkann bara er það ekki? Aðrir möguleikar eru Arný, Armilla og Guðar. Skemmtilegur leikur.
Annað ekki eins skemmtilegt var að sjá myndir af Íslendingum sleikja sólina í sundlaugunum sem ég sakna á meðan ég sit hér grá og guggin í rigningunni og safna líkamshári. Ohhh.
Og svona bara svo það sé á hreinu þá erum við Addi EKKI að skipuleggja frekari barneignir. Þetta er gott í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.7.2007 | 14:29
Kvebuð
Kverkaskítur og díbblað nef er uppskrift dagsins. Átti að vera að vinna en það var ekki hægt að bjóða blessuðum viðskiptavinunum upp á þetta. Ekki huggulegt. Er búin að liggja í sófanum í dag og tekið fáar pásur. Sótti Úlfar rétt áðan og vil þakka TDC Kabel TV fyrir að hafa Disney channel opna þennan mánuðinn. Kemur sér vel akkúrat núna.
Annars erum við að rjúka í sveitina þegar Addi kemur heim. Felix fór í sumarbústaðinn með Asbjørn og familí í morgun og okkur er svo boðið í mat. Eins og það er hyggeligt og dejligt eitthvað þá verð ég að viðurkenna að ég nenni ekki alveg. Ekki í þessu ástandi.
Vona að við komumst eitthvað burt í sumar. Út úr bænum eins og maður segir. Það passar samt ekki alveg að segja það hér. Hérna gæti maður keyrt út úr bænum, gleymt að stoppa og endað í Búlgaríu. Ekki alveg það sama og austur fyrir fjall.
Svo vil ég bara koma því á framfæri að ég samgleðst Íslendingum innilega með veðrið undanfarna daga. Mér var farið að líða eins og sólin skini aldrei á Íslandi en mbl.is og aðrir vefmiðlar eru búnir að laga til í þeirri misminningu. Þá skal ég koma tilbaka einn góðan veðurdag. GÓÐAN veðurdag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 06:41
Ahhhh...
Eftir þriggja mánaða ferli með mismiklu stressi og álagi þá er prófið búið og sumarfríið í höfn. Tilkynni hérmeð stolt að ég fékk 11 sem er alveg hellingur.
Þrátt fyrir gleðina yfir því að vera búin í stressinu verð ég að viðurkenna að það tekur hálfgert tómarúm við. Hvað nú? Ja, vinna í H&M til dæmis en ég verð að viðurkenna að starfið er ekki mjög gefandi (fæ ekki einu sinni afslátt!). Ætli maður byrji ekki bara aftur í ræktinni. Er hvort sem er að borga stórfé fyrir aðganginn. Loka svo bara augunumog ímynda mér að ég sé í Suður-Frakklandi. Mmmm...lavender, sólblóm, matur og vín.
Addi var búinn að vera nákvæmlega þrjá daga í nýju vinnunni þegar hann var búinn að pota sér í betra djobb. Ekki að spyrja að því. Hann var semsagt að byrja í dag hjá thg arkitektum sem eru með skrifstofu hérna í Kaupmannahöfn. Þetta er auðvitað frábært hvað framtíðarmöguleikana varðar því stofan er bæði hér og á Íslandi. Ég efast ekki um að kallinn komi sér vel fyrir. Hann er í rauninni að vinna við það sem hann myndi gera eftir útskrift þannig að hann er mjög kátur þessa dagana!
Felix var að leggja af stað í skólann í síðasta skiptið þetta skólaárið. Ég er með smá samviskubit yfir því að fylgja honum ekki. Gat bara ekki látið sjá mig á náttbuxunum með úfið hárið - sorrí! Ekki það að mér finnist hann þurfa fylgd á hverjum degi. Hann getur alveg gert þetta sjálfur. Dönsku börnin eru svo ofvernduð að það liggur við að sum séu enn með þumalputtann í munninum. Þeim er fylgt og ekki sagt bless fyrr en þau eru komin í örugga höfn. Finnst stundum eins og það sé svolítil aumingjaræktun í gangi hérna. Það er kannski bara ég.
Gleðilegt sumar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2007 | 12:42
Aaaalveg að verða búið
Þá er maður mættur í skólann aftur og prófið á miðvikudag. Hlakka til.
Hvað fréttir af fjölskyldunni varðar þá er allt að komast í sumar"frís"gírinn. Erum búin að vera með gesti allan júní og nú eru skólarnir að klárast. Addi kláraði í síðustu viku, ég á miðvikudag og Felix á föstudag. Þá förum við Addi semsagt að vinna í staðinn. Jei. Gæti alveg hugsað mér að vera bara í skóla. Það er svo asskoti huggulegt.
Við höfum ekki skipulagt Íslandsferð í sumar og stefnir ekkert í það en Felix gæti kíkt við síðla sumars. Úlfar þyrfti reyndar að fara líka bara til að læra tungumálið. Nú kemur allt á dönsku og Addi er hættur að skilja hann. Ég heiti meira að segja moar(borið fram með tilheyrandi dönskum væluframburði). Mér finnst mamma fallegra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)