Bræði

Fyrirsögnin kemur málinu ekkert við, mér finnst bræði bara flott orð.

Nú er komið að fasa tvö - prófundirbúningi - þannig að ég sit hér við tölvuna og reyni að einbeita mér að því að lesa og yfirfara verkefnið. Reyna að finna öll atriði sem prófdómarar gætu mögulega rekið okkur á gat með. Ég hef tekið að mér að vera með theory á hreinu. Vita hvað Giddens átti við með duality of structure og trust in expert systems. Nú gæti margur spurt sig hvað það hefur með eftirlit(surveillance) að gera? Já, það væri áhugavert að geta útskýrt það hér og nú, en það verður að bíða betri tíma.

Get þó upplýst að trust in expert systems er fyrirbæri sem Giddens vill meina að fái okkur mannfólkið til dæmis til að setjast upp í skrilljón tonna ferlíki og fljúga yfir höf og heimsálfur án þess að óttast um líf okkar. (ok, á ekki við um alla Gyða!) Við treystum því einfaldlega að það sé búið að kanna málið til hlítar og ganga úr skugga um að líkurnar á hrapi séu hverfandi. Á sama tíma sér hver heilvita maður að þetta er ekki lógískt. (ok, á ekki við um alla Inga Lára!) 

Á sama hátt verðum við að treysta því að allar þær upplýsingar sem geymdar eru um okkur í hinum ýmsustu gagnabönkum og á upptökum úr öllum þeim eftirlitsmyndavélum sem við hættum okkur nálægt  séu rétt varðveittar og séu ekki misnotaðar. Allt er þetta gert í nafni öryggis og hægðarauka og við verðum bara að trúa því. Annars verðum við ofsóknarbrjáluð og byrjum að láta eins og kallinn sem Örn Árna leikur í Spaugstofunni og felur sig inni í einni af styttum bæjarins.

Sem enginn nennir að horfa á, grey stytturnar, aleinar, á stöllunum, ræ, ræ, ræ.....

Jæja, hliðarspori lokið.  


Puha!

Jamm, helvítið kláraðist, innbundið í tíu eintökum og skilað með pompi og prakt á miðvikudaginn. Það var gooooott.

Nú er komið að næsta stigi. Þarf að lesa verkefnið yfir og finna allt sem er að því til að hafa skýringu á því í munnlega prófinu þann 27. Úff, það verður gott að koma þessu frá.

Annars fer lítið fyrir fríi enn sem komið er. H&M virðast þjást af starfsmannaskorti þannig að ég er að vinna alla daga sem ég á annað borð gef kost á mér. Var þó í fríi í gær og naut sumarsins. Við fórum bæði á ströndina OG í Furesøen að busla. Gaman, gaman.

Það verður að segjast eins og er að lífið er aðeins öðruvísi þegar ekkert þarf að hugsa um hvort þurfi peysu, sokka eða regnhlíf. Bara stuttbuxur og bol eða kjól, sólvörn, sólgleraugu og maður er tilbúinn í daginn. Mjög ljúft. Verð samt alltaf glöð þegar rigningin kemur - mér finnst rigningin góð.

 


Sunnudagur - 3 dagar til stefnu

Vöknuð klukkan hálfsjö á sunnudegi. Komin í skólann klukkan átta og í dag á að klára helvítið. 

 


Ný vinna

Er nýjasti starfsmaður H&M keðjunnar og á skilti með nafninu mínu sem sannar það. Afgreiddi á dönsku í dag (og eina á íslensku), og gekk það með mestu ágætum. Ég hafði smá áhyggjur hvað mér fannst ofboðslega gaman í einhæfri, nánast færibandalegri, vinnunni í dag. Hugsaði með mér að kannski væri maður bara að skjóta verulega yfir markið með öllu þessu háskólanámi. Held þó að dagurinn hafi einfaldlega verið kærkominn veruleikaflótti. Í sex tíma fékk ég að láta sem svo að það mikilvægasta í heimi væri að segja 'Hej' á sem mest aðlaðandi hátt, ná augnsambandi og brosa. Viðskiptavinirnir fengu breitt bros í veganesti og ég held svei mér þá að mér hafi tekist að þykjast vera ekki hjartanlega sama um hvernig þeir hefðu það. Á meðan þurfti ég ekki að hugsa um verkefnið og var bara í fínu skapi þegar ég hitti stelpurnar eftir vinnu.

Nú er ég komin heim og þarf að sinna stressinu.

www.engrish.com er fyndið. Fried crap in spicy sauce - tíhíhí. 


Þá er botninum náð

Ekki þó þannig meint að botninn sé að blogga heldur er botninum í verkefnaskrifum náð þegar ég læt loksins af því verða að blogga þegar ég á að vera að gera eitthvað allt annað. Það er, skrifa verkefni. Verkefnið sem ég er að vinna með fjórum skandinavískum ungmeyjum. Við erum svona 'tím' - fjórar ungmeyjar og þreytta konan. Ef það er ekki augljóst þá er ég þreytta konan.

Er komin með skjálfta af koffíntöflunum sem ég tók áðan og er enn flökurt af syfju. Hélt reyndar áðan að það væri kominn jarðskjálfti, en á sekúndubrotinu sem það tók mig að gera mér grein fyrir að líklega væri ekki kominn jarðskjálfti í Frederiksberg (veit ekki til þess að flekarnir skarist mikið undir mér hérna)komst ég að niðurstöðu. Ég stend nánast ofan á neðanjarðarlestarkerfinu. Snillingur.

Verkefnaskil 6. júní. Held þetta hafist. Leiðbeinandinn okkar komst vel að orði þegar hann vitnaði í Calvin and Hobbes. Calvin á að gera verkefni fyrir skólann og mamma hans er að hvetja hann til að koma sér að verki:

Calvin: "I just need to get in the right frame of mind"

Mamman: "And which frame of mind is that?"

Calvin: "Blind panic!" 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband